Engifer er kínversk lækningajurt sem löng hefð er
fyrir að nota gegn ógleði. Doktor Wei Ming Sun
og samstarfsmenn
við Michigan-háskóla í Ann Arbor hafa nú
í fyrsta sinn staðið fyrir rannsókn sem sannar að
engifer er í raun áhrifaríkt lyf gegn einkennum ferðaveiki.
Samanburðartilraun
Sjö hraustir einstaklingar á aldrinum 18 til 35 ára
voru settir í stóra tromlu sem snérist um það
bil hálftíma eftir máltíð með það
fyrir augum að kalla fram ferðaveiki. Þátttakendum
í rannsókninni voru annað hvort gefin 1.000 mg af engiferdufti
eða lyfleysa klukkustund áður en ferðaveikieinkennin
voru framkölluð.
Á meðan tromlan var í gangi voru einkenni ferðaveiki
metin á kvarðanum 1 til 3. Þau mældust umtalsvert
lægri hjá þeim þátttakendum sem fengið
höfðu engiferduftið en hjá viðmiðunarhópnum
sem fékk lyfleysuna. Vísindamennirnir segja að meðaltal
engiferhópsins hafi verið 1,0 en að meðaltal lyfleysuhópsins
hafi verið 2,5.
Þegar tromlan var stöðvuð voru einkenni ferðaveiki
metin á kvarðanum 1 til 10. Meðaltal engiferhópsins
var 1,5 en meðaltal lyfleysuhópsins 7,8.
Þeir sem tóku engifer fundu umtalsvert síðar fyrir
einkennum ógleði en viðmiðunarhópurinn, eða
eftir 11,4 mínútur miðað við 4,6 mínútur.
Rannsakendurnir mældu einnig rafvirkni í maga og komust að
því að engifer hélt tíðni samdráttarhreyfinga
í maga eðlilegri á meðan tromlan snérist.
Hjá lyfleysuhópnum jókst tíðni samdráttarhreyfinga
í maga hins vegar um 7%.